Talað um vísindi

Silja Jóhannesar Ástudóttir, samskiptastjóri Háskólans á Akureyri
Silja Jóhannesar Ástudóttir, samskiptastjóri Háskólans á Akureyri

Í dag lauk afar áhugaverðu tveggja vikna námskeiði hjá Háskólasetri Vestfjarða sem stóð yfir dagana 5-16. febrúar. Námskeiðið heitir “Talað um vísindi: Hagnýtur leiðarvísir að skapandi miðlun vísinda” og er hluti af meistaranámi kennt við Háskólasetur. Námskeiðið fjallar um hvernig miðla á vísindalegu efni bæði innan og utan veggja vísindasamfélagsins og er kennt af Jenny Rock. Nemendur læra fjölbreyttar aðferðir til að miðla vísindalegu efni í ólíku samhengi á skapandi hátt. Námskeiðið er hagnýtt þar sem notast er við vinnustofur og efni námskeiðsins byggir á fjölbreyttum sviðum til að hjálpa nemendum að miðla fjölbreyttu vísindalegu efni og samfélagsmálum.

Við heyrðum í henni Silju Jóhannesar Ástudóttur til þess að fá hennar upplifun sem þátttakandi í námskeiðinu. Silja er samskiptastjóri Háskólans á Akureyri og kom til Ísafjarðar til að taka þátt í námskeiðinu og nýtir sér einnig fjarvinnu aðstöðu Háskólaseturs.

Hver er þinn bakgrunnur?
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ og MBA gráðu frá HR. Ég hef líka 30 einingar í viðskiptafræði frá HA og er í mastersnámi þar í dag í kennslufræðum á fyrsta ári. Ég hef aldrei haft brennandi áhuga á neinu en temmilega mikinn áhuga á flestöllu. Það hefur gert að verkum að ég hef ekki sóst í að efla einn feril hjá mér. Undanfarin átta ár hef ég meira og minna verið í atvinnu-og byggðaþróun. Þar vann ég í umhverfismálum, menntaverkefnum, evrópuverkefnum og í almennri ráðgjöf til einstaklinga og lítilla fyrirtækja með allt tengt því að koma hugmynd að stað, fjármögnun, styrkjaleit, markaðsmálum og svo framvegis. Í þessum störfum vann ég þvert á einingar, almenning, stofnanir, fyrirtæki og stjórnvöld. Stýrði verkefnum og tók þátt. Ég var með í að byggja upp Norðanátt í gegnum starf mitt hjá SSNE sem er vettvangur frumkvöðla og nýsköpunar á Norðurlandi. Svo fór ég sjálfstætt í ráðgjöf ásamt því að prófa að vinna að verkefni sjálf. Tók svo við starfi samskiptastjóra HA sumarið 2023.

Hvernig nýtist námskeiðið í þínu starfi?
Það mun nýtast að tvennu leyti:
Að heyra í ungu vísindafólki. Nemendurnir á námskeiðinu gefa mér mikla innsýn í hvernig þeir hugsa og það er áhugavert. Þau eru gagnrýnin á hlutina og eru þau sem í framtíðinni þurfa að koma sínum vísindum á framfæri.
Efnistökin. Þarna er verið að kenna efni sem nýtist í allri miðlun í rauninni en er sérmiðað að vísindamiðlun og það hjálpar mér í því hlutverki að reyna að miðla allskonar vísindum í mínu hlutverki hjá Háskólanum á Akureyri. Ég mun nýta þetta efni áfram og reyna að finna leiðir til að styðja við vísindafólkið hjá HA.
Námskeiðið er byggt upp þannig að allir tímar byrja á mikilli umræðu úr lesefninu og þátttaka þar er metin sem gerir það að verkum að þú gefur lesefninu mikinn gaum. Það er líka gagnsætt hvernig þátttakan er metin sem ég kann vel við.

Hvernig varð þetta námskeið fyrir valinu?
Í rauninni í gegnum tengsl eins og svo margt á Íslandi. Yfirmaður minn vann hjá Háskólasetri Vestfjarða og hún rak augun í þetta námskeið og benti mér á það. Það nýtist mér vel því ég er ný í þessu starfi og hef ekki markvisst unnið áður að vísindamiðlun. Það sem vakti áhuga minn var erlendur reynslumikill kennari. Þá er HA í samstarfi við Háskólasetrið og alveg frábært að nýta samvinnuna í þekkingaryfirfærslu og frekara samstarf.

Hvernig er að taka námskeið hjá Háskólasetri samhliða vinnu?
Það er flókið. Ég er svo heppin að mínar aðstæður bjóða upp á að koma og vera á Ísafirði í tvær vikur. Bæði persónulega og í starfi, þar sem HA að mínu mati er vinnustaður sem er afar þjálfaður að vinna í fjarvinnu og opin fyrir starfsþróun. Það sem er jákvætt er að hér get ég fengið vinnuaðstöðu svo ég get nýtt tíma utan námskeiðsins vel. Þá er starfsfólk Háskólaseturs ótrúlega tilbúið í aðstoða við allt praktískt og býður fólk afar velkomið. Mér líður vel hér.

Hvernig er nemendahópurinn?
Það er ég og svo um 15 nemendur í mastersnámi og öll erlendis frá. Þau eru virkilega vel að sér og tjá sig mikið sem er frábært að sjá. Þau eru öll í mastersnámi hér hjá Háskólasetri og hafa fjölbreyttan bakgrunn í námi. Virkilega skemmtilegt að sjá alla þessa orku og vitneskju hjá svo ungu fólki.

Hvernig nýtist námskeiðið til endurmenntunar?
Það nýtist vel ef þú hefur ekki beina reynslu af vísindamiðlun og ert að vinna á vinnustað þar sem hún er nauðsynleg eða ert sjálf vísindamanneskja. Þetta gæti nýst fólki sem starfar í miðlun hjá fyrirtækjum eða stofnunum sem hafa fram að færa vísindi og sérstaklega ef þú hefur ekki verið í þeim geira lengi. Þá eru efnistökin viðeigandi og verkefnin halda þér við efnið.

Myndir þú mæla með þessu námskeiði?
Heilt yfir já, hugsa að í bland við frekari þekkingu á markaðssetningu þá geti það hjálpað mikið við framsetningu vísinda. Þó tel ég að þetta námskeið ætti að kenna í grunnnámi í öllu háskólanámi, þetta er góð þjálfun í vísindamiðlun og það er gríðarlega mikilvægt að rannsóknir séu ekki gerðar í tómarúmi og það þarf þekkingu og list til að geta miðlað þeim áfram til allskonar markhópa.



Háskólasetur Vestfjarða þakkar Silju fyrir viðtalið og minnir á að öll meistaranámskeið sem kennd eru við Háskólasetur eru opin gestanemum, skiptinemum og fólki úr atvinnulífinu og eru hluti af tveimur alþjóðlegum þverfaglegum meistaranámsleiðum, haf- og strandsvæðastjórnun, og sjávarbyggðarfræði.

Í kennsluskrá má finna upplýsingar um þau áhugaverðu námskeið sem kennd eru á hverju skólaári. Námskeiðin eru kennd í lotum og eru kennd á ensku þar sem nemendahópurinn er alþjóðlegur og kennarar koma alls staðar að úr heiminum.