Rannsakar umhverfisvæna ammoníakframleiðslu á Ísafirði

Háskólasetur Vestfjarða fékk heimsókn frá ungum rannsakanda sem skoðar umhverfisvæna ammoníakframleiðslu á Ísafirði. Matei Filip Popescu er 26 ára meistaranemi við Háskóla Íslands í umhverfis og auðlindafræði. Hann hefur dvalið á Ísafirði í eina viku og hefur nýtt sér fjarvinnuaðstöðu Háskólaseturs Vestfjarða við vinnu sína á rannsókninni, m.a. til að taka viðtöl við íbúa á svæðinu. Leiðbeinandinn hans er Dr. David Cook, stundakennari við Háskólasetur Vestfjarða og aðjúnkt við Háskóla Íslands. Það var í gegnum þessi tengsl David Cook við Háskólasetur að Matei kom til okkar.

Meistaraverkefni Matei fjallar um samfélagslegt samþykki á notkun á grænu ammoníaki í haftengdum iðnaði. Hann tók viðtöl við stofnanir, fyrirtæki, og almenna íbúa á Ísafirði til að kanna skoðanir þeirra, áhyggjur, eða áhuga gagnvart því að sett yðri upp miðstöð fyrir framleiðslu á grænu ammoníaki hér á Ísafirði.

Matei skýrir munin á grænu ammoníaki og hefðbundnu ammoníaki á eftirfarandi hátt. Grænt ammoníak er framleitt með endurnýjanlegri orku á meðan hefðbundið ammoníak er framleitt með jarðefnaeldsneyti. Þegar vetni er framleitt með rafgreiningu, sem er ferlið sem skiptir vatni í vetni og súrefni með notkun rafmagns, hafi það þann kost að gróðurhúsalofttegundir losna ekki við framleiðslu þess. Grænt ammoníak hafi þar af leiðandi möguleika sem kolefnislaust eldsneyti fyrir haftengdan iðnað. Svo hefur grænt ammoníak svipaða eiginleika og jarðefnaeldsneyti hvað varðar geymslu þess og meðhöndlun, sem gerir það auðveldara til notkunar. Áhugi Matei á þessum málefnum hófst löngu fyrir meistaranámið hans.

“Heimurinn keppist við að minnka losun og ómögulegt er að rafvæða allar atvinnugreinar að fullu, því er þörf á öðrum eldsneytisgjöfum. Ég er mikill talsmaður þess að hlusta á raddir samfélagsins þegar að kemur að þróunarverkefnum eins og þessu, sem myndi á einhvern hátt hafa áhrif á þessi samfélög. Út frá þessu varð efni meistaraverkefnisins valið þegar ég og leiðbeinandinn minn reyndum að einblína á eina mögulega lausn”. Hann telur að rannsókn hans muni gagnast bæjarfélaginu með því að veita dýpri skilning á því hvaða félagslegar hindranir eru til staðar gagnvart ímyndaðri miðstöð fyrir framleiðslu á grænu ammoníaki á Ísafirði. Hann segir einnig að rannsóknin mun veita innsýn inn í það hvernig hægt sé að takast á við þær áskoranir.

Á meðan Matei dvaldi hér á Ísafirði og hjá Háskólasetri Vestfjarða, fræddist hann um meistaranámsleiðirnar sem Háskólasetur hefur upp á að bjóða. Hann segir að hann hafi fundið líkindi milli þeirra og meistaranámsins sem hann stundar hjá Háskóla Íslands. Þegar hann var spurður að því hvaða námskeið yrði fyrir valinu ef hann kæmi hingað sem gestanemi þá sagði hann að hann væri spenntur að sitja námskeiðið um fæðukerfi strandsvæða. Matei fékk einnig aðstoð frá starfsfólki Háskólaseturs, meðal annars við að hafa samband við þátttakendur og ýmsar ábendingar um samfélagið á Ísafirði. Við vonumst til að sjá Matei aftur á Ísafirði og í Háskólasetri, kannski sem gestanema. Dvöl hans hjá okkur hefur verið fræðandi bæði fyrir Matei og starfsfólk Háskólaseturs og sýnir fram á mikilvægi samstarfs milli Háskólaseturs og ungra rannsóknarmanna frá öðrum stofnunum eins og Háskóla Íslands.