Rannsóknir á Vestfjörðum kynntar í Vísindaporti

Á föstudaginn 10. Nóvember var Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða haldið utan veggja Háskólasetursins í fyrsta sinn. Viðburðurinn var haldinn í Blábankanum á Þingeyri þar sem fræðafólk á Vestfjörðum hélt stutta fyrirlestra um nýjustu rannsóknir sínar. Fræðafólkið tilheyrir Rannsóknarsamfélagi Vestfjarða sem er opinn hópur fólks sem stundar rannsóknir á Vestfjörðum og í nærumhverfi. Fyrirlesararnir voru meðal annars frá Háskólasetri Vestfjarða, Háskóla Íslands og Náttúrustofu Vestfjarða.

Catherine Chambers, rannsóknarstjóri Háskólaseturs fjallaði um jafnrétti og jöfnuð í sjómennsku og sýndi frá rannsókn sinni á strandveiðibátum. Fagstjórarnir tveir hjá Háskólasetri Vestfjarða, þeir Brack Hale og Matthias Kokorsch héldu báðir fyrirlestur. Matthias sem er fagstjóri meistaranámsins Sjávarbyggðarfræði fjallaði um rannsókn sína á samspili staðartengsla (place attachment) og náttúruváa á Íslandi. Brack sem er fagstjóri meistaranámsins Haf- og Strandsvæðastjórnun fjallaði um rannsókn sína á fólksferðum í Svissnesku Ölpunum með notkun ljósmyndavefsins Flickr.

Frá Náttúrustofu Vestfjarða voru Christian Gallo með erindi um fugla á Vestfjörðum og rannsóknir á sjávarbotni í tengslum við fiskeldi, Anja Nickel með erindi um hvernig fylgst er með ungum þorskum í Dýrafirði með litlum sendum og Ingrid Bobekobá fjallaði um merkingar á fuglum, en Ingrid er fyrrverandi nemandi Háskólaseturs sem útskrifaðist árið 2022 úr Haf- og Strandsvæðastjórnun. Alex Tyas doktorsnemi við HÍ fjallaði um neðansjávar fornleifafræði og hvernig samfélag fornleifafræðinga og kafara geta unnið saman.

Rannsóknarsamfélag Vestfjarða heimsótti einnig Grunnskólann í Þingeyri þar sem þau héldu kynningu fyrir miðstig og efsta stig. Vel var tekið á móti þeim og byrjað var á því að hver og einn rannsakandi teiknaði skýringarmynd upp á töflu fyrir börnin sem áttu að giska hvað sá aðili var sérfræðingur í. Teikningarnar skörtuðu fuglum, fiskum, hryggleysingjum og plöntum svo eitthvað sé nefnt. Rannsakendur kynntu svo stuttlega sína fræðigrein og rannsókn og svöruðu spurningum áhugasamra nemenda.

Eftir skemmtilega skólaheimsókn og þéttsetið Vísindaport var starfsfólk Háskólaseturs og Rannsóknasamfélag Vestfjarða ánægt með daginn á Þingeyri.