Könnuðu framtíð haf- og strandsvæða á Vestfjörðum

Hópur nemenda frá Háskólasetri fór á dögunum í vettvangsferð og heimsótti Ósvör, Bolafjall og Holt í Önundafirði. Hópurinn samanstóð af nemendum úr tveimur námskeiðum sem kennd eru á sitthvorum meistaranámsleiðum. Annað námskeiðið er „People and the sea: Geographical perspectives“ sem er skyldunámskeið í sjávarbyggðafræði þar sem einblínt er á að skilja tengingu fólks við hafið með hugtökum úr landafræði. Hitt námskeiðið er „Coastal and Marine Management: Theory and Tools“ sem er skyldunámskeið í Haf- og strandsvæðastjórnun þar sem nemendur læra um kenningar, stefnumótun, löggjöf og tól í haf- og strandsvæðastjórnun.

Hópurinn byrjaði í Ósvör þar sem þau hittu Jóhann Hannibalsson safnvörð, klæddan í skinnklæði eins og tíðkaðist hjá sjómönnum áður fyrr. Jóhann fræddi nemendur um safnið og sögu sjómennsku á svæðinu. „Tilgangurinn með því að fara í Ósvör var að láta nemendur fá tilfinningu fyrir sögu fiskveiða í sjávarþorpum og að skilja hversu mikilvægar fiskveiðar hafa verið fyrir þessi svæði“- segir Brack Hale, fagstjóri meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun. Hann segir að það sé mikilvægt fyrir nemendur að skilja að þó svo að Ósvör sé að einhverju leiti afskekktur staður í dag, þá var hann það ekki á þeim tímum þegar helstu samgöngur voru á sjó, þetta var eftirsóttur staður því þar var fiskurinn. Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranáms í sjávarbyggðarfræði og annar kennari námskeiðsins „People and the Sea“ bætir við að í kennslu hefur verið mikið talað um hvernig sjávarafurðir eru nýttar og hversu miklu máli skiptir að vera nálægt sjó. Einnig er mikið rætt um samband fólks við hafið og hvernig sjávarbyggðir lifa með þessum afurðum.

Næst á dagskrá var að keyra upp á Bolafjall en þegar upp var komið tók við þoka, svo útsýnið var ekki upp á marga fiska í fyrstu. Kennarar námskeiðanna tveggja héldu stuttan fyrirlestur fyrir nemendur um ratsjánna uppi á fjallinu og mikilvægi hennar í kalda stríðinu en nemendurnir urðu skyndilega varir við að það snjóaði á þau, þeim til mikillar gleði. Hægt og rólega læddist þokan í burtu og hafið og Hornstrandir blöstu við. „Á Bolafjalli færðu flott útsýni yfir Ísafjarðardjúp og Hornstrandir og þú færð tilfinningu fyrir því hvar þú ert og hvernig umhverfi haf- og strandsvæða geta verið mismunandi“ segir Brack Hale. Nemendurnir fengu í hendurnar kort af svæðinu merkt með fyrirhuguðum stöðum fyrir kvíar í framtíðinni og ræddu saman um samspil fiskeldis og náttúru.

Að lokum var komið við í Holtsfjöru þar sem nemendur fengu fyrirlestur um svæðið og það mikla fuglalíf sem þar má finna. Rætt var um nýlegar áætlanir um að byggja lúxushótel og sjóböð við ströndina og hvernig það gæti haft áhrif á náttúruna í kring. Matthias Kokorsch nefnir að svæðið sé áhugavert því það séu svo margir ólíkir hagsmunaaðilar á litlu svæði. Til að mynda eru hagsmunir ólíkir eftir því hvort um ræðir dúntekju frá æðarvarpi, byggingu lúxushótels eða að upplifa ósnortna náttúru. Hann nefnir einnig mikilvægi þess að sýna nemendum svæði sem þau ræða um í kennslu svo þau fái tilfinningu fyrir stöðunum.

Útikennsla, fyrirtækjaheimsóknir og vettvangsferðir eru algeng í námskeiðum sem eru kennd í Háskólasetri Vestfjarða. Vert er að minna á að öll námskeið á meistarastigi eru opin þátttakendum jafn frá háskólum sem atvinnulífi. Námskeiðin eru kennd á ensku enda námsmannahópurinn jafnan alþjóðlegur og kennarar koma víðsvegar að úr heiminum. Námskeiðin henta vel til endurmenntunar þar sem þau eru þverfagleg og höfða vel til einstaklinga með ólíkan bakgrunn og úr ýmsum starfsstéttum.