Háskólasetur fær Jules Verne styrk og heimsókn frá franska sendiherranum

Baskasetrið í Djúpavík
Baskasetrið í Djúpavík

Háskólasetur Vestfjarða hlaut á dögunum Jules Verne styrkinn, en það er styrkur til vísinda- og tæknisamstarfs milli íslenskra og franskra aðila á grundvelli Jules Verne samstarfs samningsins.

Styrknum er stýrt af rannsóknastjóra Háskólaseturs Vestfjarða, Dr. Catherine Chambers og Dr. Denis Laborde, þjóðfræðingi hjá frönsku rannsóknarstofnuninni fyrir vísindi. Verkefnið gengur út á að kanna sameiginlegan menningararf og sjávarminjar Íslands og Baskalands sem getur gegnt hlutverki í sjálfbærri samfélagsþróun. Verkefnið tengist stærra verkefni í Djúpavík sem kallast BASQUE. Á vef rannís um Jules Verne styrkinn kemur fram að markmiðið með samstarfinu við Frakkland er að virkja vísinda- og tæknisamstarf milli stofnana, skóla og rannsóknarhópa í báðum löndunum og að auðvelda samstarf við önnur samstarfsverkefni í Evrópu.

Á föstudaginn 9. Febrúar kom Guillaume Bazard, sendiherra Frakklands á Íslandi til Vestfjarða og heimsótti Háskólasetrið. Hann fékk kynningu á starfsemi Háskólaseturs og þeim fjölmörgu tengingum sem eru á milli Háskólaseturs og Frakklands. Til að mynda koma nemendur frá Frakklandi í meistaranám hjá Háskólasetri Vestfjarða á hverju ári og einnig er vísindalegt samstarf milli Háskólaseturs Vestfjarða og Brest í Frakklandi, bæði við Háskóla Bretaskaga Vestra UBO og Hafrannsóknastofnunarinnar IUEM. Þar að auki er samstarf milli Háskólaseturs og Sjávarverkfræðideildar innan Háskólans í Toulon í Frakklandi.

Frá vinstri Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða og Guillaume Bazard, sendiherra Frakklands á Íslandi

Frá vinstri Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða og Guillaume Bazard, sendiherra Frakklands á Íslandi