Gefum íslensku séns fær Evrópumerki

Átakið “Gefum íslensku séns” hefur hlotið viðurkenninguna Evrópumerki eða European Language Label. Viðurkenningin er fyrir tungumálakennara og/eða aðra sem koma að nýsköpun og tækniþróun í tungumálakennslu. Þau eru veitt af Mennta- og barnamálaráðuneyti og Rannís fyrir nýbreytniverkefni á sviði tungumálanáms og kennslu í samstarfi við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Evrópumerkinu er ætlað að beina athygli að frumlegum verkefnum í námi og kennslu erlendra tungumála og áhersla er lögð á nýbreytni og símenntun. Meira um Evrópumerkið er hægt að lesa hér.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, umsjónarmaður íslenskunáms við Háskólasetur Vestfjarða og forsvarsmaður fyrir átakið Gefum íslensku séns segir átakið snúast mikið um vitundarvakningu. Þar á meðal hvað felst í því að læra íslensku og hvernig við sem samfélag getum stuðlað að framförum fólks í íslensku og að fólk hafi tækifæri til að nota málið við sem flest tækifæri. Markmiðið átaksins er að stuðla að auknum möguleikum fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan og fjölbreyttastan hátt, að þau sem læra málið, sama hvar á vegi þau eru stödd, fá stuðning og skilning þeirra sem hafa vald á íslensku. Að átakinu standa Háskólasetur Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Ísafjarðarbær og Súðavíkurhreppur.

Átakið hlaut styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála snemma á árinu 2023 og hlaut viðurkenningu frá íslenskri málnefnd haustið 2022. Gefum íslensku séns hefur staðið fyrir fjölda viðburða, til að mynda hrað-íslensku, bingó á íslensku, spurðu um málfræði, málþingi og margt fleira.