Annar nemandi fær styrk

Emma Dexter, nemandi hjá Háskólasetri Vestfjarða í Sjávarbyggðafræði hefur hlotið styrk frá stjórn Byggðastofnunar upp á 330.000 kr til þess að vinna lokaverkefnið sitt. Hún hefur því bæst við í hóp nemenda Háskólaseturs sem nýlega fengu styrk til vinnu lokaverkefnis, sem fjallað var um nýlega hér. Emma mun rannsaka staðartengsl (place attachment) fólks sem býr á hættusvæðum vegna náttúruhamfara, til að mynda þekktum snjóflóðasvæðum. Hún mun einnig kanna vitund fólks á loftslagsbreytingum og mat þeirra á hamfarahættu á Íslandi. Þar að auki mun hún kanna hvort munur finnst á þessum þáttum milli byggða eftir því hvort fólk búi á svæðum þar sem meiri líkur eru á náttúruhamförum eða ekki. Þetta mun hún gera með því að framkvæma könnun meðal íbúa á landsvísu.

Rannsóknin hennar Emmu tengist sterkum böndum CliCNord verkefninu, en það fjallar í stórum dráttum um hvernig hægt sé að auka getu lítilla samfélaga á Norðurlöndum til þess að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga. Verkefnið gengur út frá því að náttúruvá mun hafa aukin áhrif á þessi samfélög vegna loftslagsbreytinga en það sem hefur verið skoðað í CliCNord verkefninu er til að mynda ofanflóð, stormar, flóð og gróðureldar. Alls eru 8 rannsóknir unnar í 5 löndum: Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Færeyjum og Íslandi.

Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranáms í Sjávarbyggðafræði hjá Háskólasetri Vestfjarða og Jóhanna Gísladóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands eru hluti af íslenska teymi CliCNord sem rannsakaði ofanflóð. Þau unnu sína rannsókn á Vestfjörðum þar sem þau beittu tilviksrannsókn með þátttakendum frá Patreksfirði og Flateyri. Þar kom fram að íbúar beggja bæjarfélaga sýna mikil staðartengsl bæði gagnvart náttúrunni og samfélaginu. Emma mun því taka þessa hugmynd út fyrir þessi tvö bæjarfélög með því að gera könnun á landsvísu.

Matthias og Jóhanna verða leiðbeinendur Emmu í lokaverkefninu hennar. Matthias segist vera spenntur að sjá niðurstöður hennar, sem munu vera mikilvægar fyrir CliCNord verkefnið og áhættustýringu á náttúruhamförum á Íslandi.

Við óskum Emmu til hamingju með verðskuldaðan styrk og góðs gengi með verkefnið.