Valmynd

Um Háskólasetur

Námsnet

Vefpóstur

Um Háskólasetur

Háskólasetur Vestfjarða er lítil stofnun á háskólastigi. Það var stofnað árið 2005 og tók til starfa í janúar 2006. Við Háskólasetrið sjálft starfa um 10 manns auk lausráðinna kennara. Í húsnæði Háskólaseturs starfa í heild yfir 50 manns við rannsóknir, kennslu og þjónustu hjá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum.

Háskólasetrið er fjarnámssetur sem þjónustar um 100 fjarnema, það starfrækir meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun og meistaranám í sjávartengdri nýsköpun fyrir um 50 meistaranema auk þess að bjóða upp á margs konar sumarnámskeið.

Í gegnum fjarnámið sækja Vestfirðingar menntun án þess að þurfa að flytja úr sinni heimabyggð. Háskólasetrið sér fjarnemum fyrir fjarfundabúnaði, hópvinnuaðstöðu og lestrarsölum. Fjarnemarnir eru nú að jafnaði um 100 á ársgrundvelli. Síðustu ár hefur þróunin verið í átt að fleiri og smærri hópum, en heildarfjöldi haldist stöðugur.

Meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun var sett í september 2008 af þáverandi menntamálaráðherra. Námsmenn útskrifast frá Háskólanum á Akureyri með Master of Resource Management (MRM) gráðu. Námið er alþjóðlegt, þverfaglegt og kennt í lotum. Allar loturnar eru opnar þátttakendum frá íslenskum og erlendum háskólum og úr atvinnulífinu. Nú stunda um 40 manns meistaranámið.

Auk þess skipuleggur Háskólasetrið fjölda sumarnámskeiða á Vestfjörðum og stendur jafnframt fyrir klæðskerasaumuðum námskeiðum fyrir innlenda og erlenda vettvangsskóla. Síðustu árin leiddi starfsemi Háskólaseturs af sér um 4000 gistinætur.

Árin 2008 og 2009 bauð Háskólasetrið, í samvinnu við Háskólann í Reykjavík, upp á frumgreinanám fyrir um 40 stað- og fjarnema á Vestfjörðum. Háskólasetrið hafði jafnframt umsjón með allri kennslu fjarnáms fyrstu annar frumgreinanáms HR og mun sú samvinna halda áfram árið 2010.

Háskólasetur Vestfjarða er stærsta stofnunin í Vestra-húsinu á Ísafirði og leiðandi í samstarfi stofnana í rannsóknaklasa Vestfjarða. Alla jafna sinnir Háskólasetrið þó ekki rannsóknum nema í samstarfi við rannsóknarstofnanir innan og utan Vestfjarða.

Háskólasetur Vestfjarða er aðili að alþjóðlegum samstarfsverkefnum, meðal annars á vegum Norðurslóðaháskólans (University of the Arctic), og hefur tekið þátt í verkefnum Norðurlandaráðs og Evrópusambands.

Háskólasetur Vestfjarða leggur áherslu á gæðastarf og fylgir Bologna-kröfum evrópskra háskóla í samvinnu við innlenda og erlenda samstarfsháskóla sína. Jafnframt er Háskólasetrið ung og sveigjanleg stofnun. Starfsmenn leggja sig fram við að þjónusta náms- og rannsóknarmenn á Vestfjörðum sem allra best og veita þeim náms- og rannsóknarmönnum utan Vestfjarða, sem vilja tengjast litlu en heillandi rannsóknarumhverfi á Vestfjörðum, fyrirtaks þjónustu.


Háskólasetur Vestfjarða
Suðurgötu 12
400, Ísafjörður
Ísland
Sími: 450 3040
info hjá uwestfjords.is
Kennitala: 610705-0220

Háskólasamfélagiđ

„Á Íslandi getur náttúran verið óblíð en menningin og samfélagið eru sterk. Dvölin á Íslandi hefur gefið mér kollega sem ég mun njóta góðs af til lífstíðar, kveikt í mér eldmóð um málefni strandsvæðastjórnunar og skilið eftir sig yfirvaraskegg."

Henry Fletcher, Englandi CMM nemi 2008 - 2009
Vefumsjón